Um Ártúnsskóla
Ártúnsskóli er skóli margbreytileikans þar sem nemendur eru virkir þátttakendur í skólasamfélaginu og lögð er áhersla á heildstæða menntun allra. Grunnþættir menntunar samkvæmt Aðalnámskrá 2011 eru hafðir að leiðarljósi í öllu starfi.
Í skólanum er löng hefð fyrir kennslu í umhverfismennt og hefur grunnskólinn verið handhafi grænfánans frá árinu 2008. Leikskóladeildin gerðist síðan formlega þátttakandi við þriðju afhendingu fánans í maí 2013. Í grenndarskógi skólans er góður aðbúnaður fyrir útikennslu allra árganga og deilda skólans.
Fjölbreyttir kennsluhættir
Í Ártúnsskóla er lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti til þess að koma til móts við margbreytilegan nemendahóp. Læsi er í hávegum haft á öllum skólastigum. Í skólanum er bókasafn sem býr yfir góðum bókakosti. Árlegum lestrarspretti er stýrt af safninu og auk þess sækja allir nemendur skólans sér lestrarefni á bókasafnið.
Jákvæð samskipti
Áhersla er lögð á að efla félagsfærni og jákvæð samskipti nemenda. Allir bekkir grunnskólans eiga vinabekk og 4. bekkur er vinabekkur fimm ára nemenda leikskólans. Elstu börn í leikskóladeild taka þátt í starfi grunnskólans m.a. með heimsóknum í árganga, heimsóknum á bókasafn og frístund, íþróttatímum í íþróttahúsinu, hringekju þar sem unnið er þemaverkefni með 1.bekk og frístund og þátttöku á uppbrotsdögumt.
Nemendur á miðstigi eru skólavinir, þau skiptast á að gæta og aðstoða yngri nemendur í frímínútum og stjórna leikjum í frímínútum. Skólavinir eru einnig aðstoðarmenn á matsal með yngri nemendum.
Í skólanum er áhersla lögð á samstarf og samvinnu og með reglulegu millibili er skólastarfið brotið upp og árgöngum blandað saman.
Heilsueflandi skóli
Skólinn gerðist þátttakandi í verkefni Landlæknisembættisins um Heilsueflandi skóla árið 2010. Eitt helsta markmið Heilsueflandi skóla er að vinna markvisst að því að efla og stuðla að velferð og góðri heilsu nemenda og starfsfólks. Í skólastarfinu er fléttað saman viðfangsefnum Heilsueflandi skóla og skóla á grænni grein.